Staðgöngumæðrun

Ég fór á umræðufund í dag um staðgöngumæðrun þar sem frumflytjandi þingsályktunartillögu um staðgöngumæðrun, Ragnheiður E. Árnadóttir alþingismaður flutti erindi.

Mér finnst umræðan í fjölmiðlum hafa verið á misháu plani og það vanti smá faglega og tilfinningaminni umfjöllun um þetta tilfinningamiklamál.

Þingsályktunartillöguna má nálgast hér og skýrslu vinnuhópsins um staðgöngumæðrun má nálgast á pdf skjali hér.

Áður en ég fer að viðra mína skoðun þá hvet ég lesendur til að lesa sér til um þetta mál svo umræðan verði upplýst.

Ég hvet þig til að kynna málefnið nánar í eftirfarandi BA lokaverkefni Elísu Maríu Oddsdóttur úr félagsfræði um staðgöngumæðrun hér.

Þá hefur Guðbjörg Anna Guðbjarnardóttir tekið á lagaleguhlið málsins í BA verkefni úr lögfræði sem má nálgast hér.

Staðgöngumæðrun er skilgreind (samkvæmt tillögunni) sem kona sem gengur með fóstur úr kynfrumu annars en sjálfs síns sem frjógvað var með tæknifrjógvun. Konan lætur barnið af hendi til foreldra þess þegar það er fætt og hefur ekkert tilkall til þess né er líffræðilega skylt því.

Í dag eru lögin þannig að sú sem fæðir barnið er réttlega móðir þess. Þessu þyrfti að breyta ef staðgöngumæðrun á að verða að veruleika.

Gengið er útfrá því að á Íslandi verði þetta gert útfrá velgjörðarsjónarmiði en ekki til gróða. Því mætti ekki greiða viðkomandi þóknun fyrir þessa „þjónustu“ en vissulega myndu foreldrarnir greiða lækniskostnað og vinnutap.

Þá er einnig gerð krafa að sá sem nýtir sér staðgöngumæðrun geri það af læknisfræðilegum ástæðum (þ.e. getur ekki gengið sjálf með barn) og að einstaklingur sem leitar eftir slíku úrræði þurfi að gangast undir svipað mat og þeir sem sækjast eftir því að ættleiða (sálfræðimat oþh.).

Í tillögunni er ekki minnst á samkynhneigða karlmenn (sem ég skil ekki) en Ragnheiður sagði að útfrá jafnréttissjónarmiði þá ættu þeir að sjálfsögðu einnig að fá að nýta sér þetta úrræði til að eignast barn. Misjafnar skoðanir voru um það á fundinum en það held ég að sé bara fáfræði í garð samkynhneigðra og því er upplýst umræða stórkostlega mikilvæg.

Án þess að ég fari út í smáatriði fundarins þá fannst mér einkar áhugavert að Ragnheiður taldi með lögum um tæknifrjógvun (sjá hér) væri búið að svara mjög mörgum siðferðislegum álitamálum tengdu staðgöngumæðrun en auðvitað koma sífellt upp ný mál og þá vantar svör við þeim spurningum.

Eitt slíkt væri t.d. varðandi þau pör sem fá synjun um staðgöngumæðrun, fara þau þá bara erlendis og „redda þessu sjálf“. Það er nú vitað slíkt hefur verið gert og er gert og hvað gerum við þá?

Einn sérfræðingur í ófrjósemi tók til máls og taldi hann að það væru örfá tilfelli á ári hverju sem myndu nýta sér þetta, kannski um 3 pör.

Þá voru einnig nokkuð áhugaverðar umræður sem spruttu upp í tengslum við ættleiðingar og rétt einstaklingsins til að vita sinn líffræðilega uppruna líkt og í tengslum við óþekkt gjafaegg og/eða sæði. Ein á fundinum sagði það vera brot á mannréttindum barna samkvæmt Sameinuðu Þjóðunum að geta ekki komist að sínum líffræðilega uppruna og aðrir tóku undir það. Þá skal tekið fram að það er víst dýrara að þiggja egg/sæði ef gjafi þess er þekktur en þá getur einstaklingurinn óskað eftir upplýsingum við átján ára aldur.

Þá er lagt til í tillögunni að nafn staðgöngumóður koma fram á fæðingarvottorði barns, auk foreldra þess.

Staðgöngumæðrun er ekki leyfð á hinum Norðurlöndunum þó hún hafi verið leyfð um tíma í Finnlandi, með góðum árangri, en vegna breyttar löggjafar datt það út. Ísland gæti þá verið leiðandi í þessum málaflokki, líkt og með fæðingarorlofsrétt feðra á sínum tíma.

Í Bandaríkjunum eru reglurnar misjafnar eftir fylkjum en ég las grein um daginn þar sem sagt var frá ungri konu á þrítugsaldri sem hafði verið staðgöngumóðir fimm sinnum fyrir ókunnugt fólk og þegið háa peningasummu fyrir. Þetta er oft nefnt “wombs for rent” ef þig langar að henda þessi í gegnum google.

Staðgöngumóðurinni í fyrrgreindu viðtali fannst þetta ekki mikið tiltökumál (að hennar sögn) og í raun heiður að geta gefið fólki þessa heimsins dýrmætustu gjöf, þeirra eigin barn. Í þessu samhengi spái ég í þeim sem kannski hafa engan til að ganga með barn fyrir sig, hvað gerir maður þá? Þurfa að vera blóðtengsl eða rakin vinátta aftur í grunnskóla? Mætti auglýsa eftir staðgöngumóður í blöðunum?

Í tengslum við þetta, hversu mikinn rétt hafa foreldrarnir yfir lífi staðgöngumóðurinnar? Geta þeir gert kröfu um líkamsrækt og mataræði eða kemur þeim þetta ekkert við fyrr en barnið er fætt?

Þá sagði ein kona frá því á fundinum að Ísraelar leyfðu staðgöngumæðrun (það væri í gyðingatrú að leyfa slíkt) undir ströngum formerkjum og það væri hugsanlega löggjöf sem við gætum tekið okkur til fyrirmyndar er við vinnum að í okkar máli. Mér skildist samt á þeirri konu að þá væri þetta meira tengt blóðböndum og þannig hlaupa ættingjar undir bagga. Ég hef hinsvegar ekki kynnt mér lögin og því þekki ég það ekki nægilega vel.

Mér fannst áhugavert að Ragnheiður sagði að við gætum ekki sett verðmiða á börn með því að leyfa/þröngva  konum til að gera þetta í gróðaskyni en ekki af æðri tilgangi. Í mínum huga er samt sem áður verðmiði á börnum í okkar samfélagi. Það er verðmiði á því hvað maður fær í barnabætur og fæðingarorlof og hvað hvert skipti í tæknifrjógvun kostar og kostnaðurinn aukist ef þú átt barn fyrir. Við erum með verðmiða á allskonar hlutum og það að halda að að það sé ekki verðmiði á þessu…tja hvað skal segja.

Ein konan sagði einmitt að hún myndi vilja ganga með barn fyrir dóttur sína og myndi ekki spyrja kóng né prest hvort hún mætti það.

Þá sagði önnur að henni fyndist sjálfsagt að greiða konunni þóknun fyrir að leggja slíkt á sig.

Þetta verður ekki úrræði sem stendur öllum til boða (t.d. útfrá fjárhag), ekki frekar en tæknifrjógvun eða ættleiðing, óháð jafnréttissjónarmiðunum sem verða höfð til hliðsjónar. Það þýðir samt ekki að það eigi ekki að leyfa þetta. Það má kannski bara alveg tala um það og benda á það. Eða ekki.

Umræða á þingi fer fram nú á fimmtudaginn og Ragnheiður og hennar vinnuhópur vonar að frumvarp verði komið fyrir þing ekki seinna en í lok mars.

Heimasíðu félagasamtaka um staðgöngu má svo finna hér.

Og hvað finnst fólki svo?

Sigga Dögg

– sem er sammála því að úrræði þurfi að vera til staðar en einnig að það þurfi að fara vandlega og vel að því og jafnframt að gæta að jafnrétti