Líf og starf kynfræðings

Á haustin er yfirleitt mikið að gera í mínu starfi.

Ég sveiflast á milli grunn- og framhaldsskóla með fyrirlestra og er þá gjarnan með börn allt frá 7.bekk.

Svo yfirleitt bæti ég við nýjum fyrirlestrum á hverju hausti og í ár eru það fyrirlestrar um börn á aldrinum 0 til 6 ára og hafa þeir fyrirlestrar verið vinsælir hjá leikskólum um borg og bæ. Það er virkilega gleðilegt því þetta er málefni sem hefur ekki mikið verið fjallað um en ég skrifaði um það í bókinni minni, Kjaftað um kynlíf. Sem minnir mig á það, ég hef mikið verið spurð hvort salan á bókinni gangi ekki vel. Nú er ég ekki beintengd kassakerfum verslana en það sem mér skilst er að hún gangi bara nokkuð vel og tölvupóstarnir sem ég hef fengið frá foreldrum eru virkilega skemmtilegir og jákvæðir 🙂

Aftur að fyrirlestrunum. Ég hef bætt öðrum fyrirlestri við (í öðru formi) og það er svona smá kynlífsspjallssprell (óþjált!) og fer ég þá í starfsmannahópa eða gæsanir/Oddfellow fundi/saumaklúbba og þess háttar hittingi og það er ótrúlega skemmtilegt. Yfirleitt er þetta um 30 mín til klst spjall og mikið grínast og hlegið en það er alltaf gott að geta hlegið aðeins saman, sérstaklega þegar umræðuefnið er kynlíf!

Þannig að þetta er svona það helsta sem ég er að gera þessa dagana. Það kemst lítið annað að utan vinnunnar og það er ekkert nema skemmtilegt og gleðilegt við það.

Auðvitað er ég líka að dreifa kynfæragleði útum allt land, þ.e. á prentuðu formi sem póstkort. Vekur gífurlega lukku. Nema um daginn þegar ég notaði það sem blævæng inni á fundi því mér var svo heitt. Sú sem var með mér á fundinum bað mig vinsamlegast um að leggja þetta frá mér. Ég bókstaflega sveiflaði typpum fram og aftur um andlitið á mér. Það þykir víst frekar ósmekklegt 🙂

Auglýsing Kjaftað um kynlíf

Sigga Dögg kynfræðingur