Dagbók kynfræðings

Ég sakna þess að blogga.

Vissulega skrifa ég mikið um kynlíf og allskonar pistla en ég sakna þess að skrifa í fyrstu persónu og meira bara svona um hitt og þetta sem verður á vegi mínum í vinnunni, eða eins og í þessu tilfelli, heima. Ég er búin að vera heima í rúma viku með veikt barn. Það væri ekki í frásögur færandi nema hvað að það er ekki beint hægt að vera í heimildaröflun þegar maður er með veikt barn heima. Sumt er bara óviðeigandi og annað fær maður ekki frið til að lesa og kynna sér almennilega.

En eitt þurfti ég að gera og (taldi mig geta gert það með barninu) og það var að fara yfir kassa með persónulegum munum.

Ég er alltaf að tala um á fyrirlestrum og í bókinni Kjaftað um kynlíf hversu mikilvægt það er að finna sinn innri ungling og muna eftir honum þegar kynlíf er rætt við börn og unglinga.

Ég kastaði mér í djúpu laugina í dag þegar ég veiddi hverja dagbókina á fætur annarri uppúr krumpuðum og rykugum kassanum.

Kjánahrollur nær engan veginn að lýsa upplifun minni í dag.

dagbók 13 ára sjálfs míns

Samt var eitthvað svo fallegt við að spóla tuttugu ár tilbaka og rifja upp fyrsta sleikinn („oj hann var sko illa ógeðslegur, alger vibbi“) og ég hætti með X en byrjaði með Y en X varð fúll því Y er besti vinur hans og þar frameftir götunum 🙂

Og unglingamálið. Æ það var hálf átakanlegt en þetta batnaði nú eftir því sem árin liðu og þegar ég var loksins komin frá árinu 1996 og yfir á 2001 þá var þetta nú bærilegt en ástarsorgin var nánast óbærileg. Ég fann hjartað titra þegar ég las söguna af dramatískri rómantík sem setti allt á hvolf, bara með einu sms-i.

Ein vinkona mín brenndi gömlu dagbækurnar sínar, hún gat ekki afborið það að maki sinn eða dóttir mundu lesa þetta einhvern daginn. Ég er ekki þar. Mér finnst þetta svo sterkur hluti af mér, svona eins og hluti af mér sé í henni (varúð – skírskotun í Harry Potter). Það að þetta sé til er einhvern veginn svo hreinskilið. En ekki sjéns að ég bjóði upp á þennan lestur til gamans. Nei ég held sko ekki. Þetta má bara vera krumpaður kassi sem ég rekst aftur á eftir nokkra áratugi og sauma kannski saman í eina góða rauða sögu, en það verður ekki alveg strax. Ég er ennþá aðeins of tengd unglingnum mínum.

Sigga Dögg kynfræðingur