Samþykki, hin heilaga þrenning

Ég birti þennan pistil fyrst á facebook 22.nóvember 2015 og hann vakti gífurleg viðbrögð og mér finnst hann svo þörf lesning að ég ætla setja hann inn hér líka.

Sigga Dögg kynfræðingur

Ég verð að reyna koma þessu frá mér. Kannski tala ég í hringi, kannski þvers og kruss en ég verð að fá að reyna, reyna að láta þetta allt meika eitthvert sense. Svo kæri lesandi, vertu þolinmóður. Gerum þetta saman.
Sigga Dögg heiti ég og er kynfræðingur. Ég hef sinnt kynfræðslu í fimm ár og farið um land allt og talaði við unglinga frá 12 ára aldri og rætt hreinskilnislega við þá um kynlíf og kynhegðun og svo foreldra þeirra líka. Ég ætla reyna skilja hvað er í gangi um þessar mundir og reyna útskýra nokkur grundvallar atriði sem snerta samþykki í kynlífi.
Byrjum á klámi. Í kynfræðslu þá legg ég mikla áherslu á að klám sé ekki matreiðsluþáttur og það sé ekki hægt að leika eftir atriði þar, ekki frekar en að horfa á Jackass og ætla hefta á sér punginn við næsta tré. Klám endurspeglar ekki raunveruleikann og það er heldur ekki markmið þess. Fólkið þarna er í vinnu. Það er ekki ofur gratt heldur gerir þetta vegna peninganna. Það er eini hvatinn.
Ef þú getur ekki rúnkað þér án þess að hafa klám í gangi þá getur það orðið að vandamáli. Aðskildu þarna á milli. Þú verður að geta hugsað kynferðislegar hugsanir án þess að hafa klám. Þú verður að geta fundið til greddu án þess að klám örvi það eða klári fyrir þig.
Svo er það kynlífið. Kynlíf er meira en bara samfarir. Það hefst ekki og endar með upprisu limsins. Þetta handrit er stórkostlega skaðlegt, eins og við erum að sjá dag eftir dag eftir dag. Kynlíf með annarri manneskju er samspil. Það er ekki útrás fyrir greddu, þá ertu fljótari (og það er töluvert auðveldara) að kippa bara í hann. Sjálfsfróun. Það er útrás, gredda, leiði, svefnmeðal, eða bara notalegt. Kynlíf með annarri manneskju er samspil ykkar sem það stundið. Það er að horfast í augu og spyrja þriggja spurninga : finnst þér þetta gott? er allt í lagi? má ég halda áfram?
Óháð kyni, kynhneigð og kynvitund.
Þetta er hin heilaga þrenning samþykkis. Horfðu í augun á manneskjunni sem þú stundar kynlíf með. Ef viðkomandi starir stjarfur eða horfir annað eða jafnvel grætur, staldraðu þá við og spyrðu spurninganna. Staldraðu við. Hægðu á þér. Vertu með.
Ekki nota aðra manneskju sem rúnku og festast í eigin heimi þar sem eina sem gildir er fullnæging, endalok og upphaf. Þetta er samspil, spurning um tengingar og nánd. Ég skil að stundum vilji fólk bara ríða, það njóta ekki allir ásta, en það er einnig spurning um samspil. Stundum langar mig í lífrænan mat en stundum bara sveittan Hlölla. Bæði má en hvorugu er troðið ofan í kokið á mér. Ég vel, ég borða, ég kyngi, ég vil þetta. Ég vel minn mat og borða hann. Það vefst ekki fyrir einum né neinum.
Þegar við tölum um samþykki þá erum við að tala um þessar samræður, það er búið að gera fjöldann allann af myndböndum sem sýna hvað sé samþykki og hvað ekki, hvar liggur misskilningurinn?
Ég er með tvær tilgátur, sú fyrri snýr að áfengisneyslu (þá á ég við ölvun) og sú seinni að stellingu sem amk einn drengur í hverjum einasta fyrirlestri í kynfræðslu nefnir; doggy style.
Byrjum á því síðarnefnda. Þetta er gríðarlega vinsæl stelling í klámi og einn strákur orðaði það í tíma hjá mér að hún væri “best í heimi, sko fyrir sig sérstaklega”. Þegar ég spurði tilbaka “en hvað með hana?” Þá staldraði hann við. Hvað var ég að meina? Var það sem var best fyrir hann ekki sjálfkrafa best fyrir hana? Þá sýndi ég honum mynd af leghálsi, lék fyrir hann smá leikrit og ræddi við hann um praktík. “Ó ok, samfarir eru auðvitað SAMfarir, við saman að njóta þess að ríða”. Algjörlega naglinn á höfuðið. Í samförum njóta báðir aðilar. Það þarf að biðja um leyfi áður en maður gerir. Það þarf að fylgjast með viðbrögðum bólfélagans. Og ef þú pælir í því, í doggy snýr önnur manneskja frá og það er nær ómögulegt að veita viðkomandi hlýju, nánd nú eða fylgjast með upplifun.
Horfðu á mig. Talaðu við mig.
Þetta eru samræður. Kynlíf eru ekkert annað en samræður. Allan daginn, alla daga. Ef þú getur ekki tekið þátt í þrenningunni og spurt þessara spurninga þá velti ég því fyrir mér hvort þú getir yfirhöfuð stundað kynlíf með annarri manneskju. Þangað til að þú getur spurt er best að vera bara heima að rúnka sér.
Þá komum við að áfenginu. Ég skil ekki nokkra þætti í því. Það er bannað að aka bíl þegar þú ert undir áhrifum því þú gætir skaðað sjálfan þig og annað fólk. Það er hægt að henda fólki úr flugvél fyrir að vera of ölvað og með læti, og svo er hægt að neita því um afgreiðslu ef það er of drukkið. Sama er uppi á tengingum á börum (ég hef unnið á þeim nokkrum og þekki það af eigin raun).
Hver þekkir ekki manneskju sem dregur aftur orð og/eða gjörðir því viðkomandi var svo drukkinn? Bara missti stjórn á sér og gleymdi stund og stað – er það gild afsökunarbeiðni? Æ, ég ætlaði ekki að berja þig, ég var bara svo drukkin. Félagar? Æ, ég ætlaði ekki að þröngva mér inn í þig, ég var bara svo drukkin. No hard feelings?
Svo ég segi það bara beint út, fimm gaurar og ein ung stúlka. Fantasía? Ekki hennar. Ég ætla leyfa mér að fullyrða það því ég veit töluvert um fantasíur. Það er ekkert til sem heitir nauðgunarfantasía því nauðgun er alltaf ofbeldi. Fantasía er hugarspurni manneskjunnar sem á þá fantasíu og því er hún alltaf við stjórnvölinn, því getur nauðgun ekki verið fantasía því manneskjan er stjórnlaus með öllu. Flestar fantasíur eru ekki þess lags að þær eigi nokkur tíma erindi við raunveruleikann og er það eðlilegt.
Ef þú vilt leika fantasíuna þína þá stígur þú inn í þann raunveruleika að fá samþykki annarrar manneskju sem ætlar að vera memm. Ekkert: ég geri, þú þegir. Heldur; ég geri, ert þú til í það? Við gerum það sem við erum bæði til í, á meðan við erum til í það.
Þetta er pínu eins og með matarlyst. Maður getur allt í einu misst lystina og þá hættir maður að borða og það á að vera talið gott og gilt. Sama gildir um kynlíf. Lystin eða löngunin getur allt í einu horfið og þá ber að virða það; ekkert “kláraðu af disknum” eða “bíddu þar til ég hef fengið það”. Same same. Þess vegna tjekkum við reglulega hvort á öðru á meðan atlotum stendur. Þessi heilaga þrenning spurninga, manstu?
Þá komum við líka að því hvað sé eðlilegt kynlíf. Það er nefnilega til skilgreining á því. Allt sem einstaklingar sem stunda kynlífið samþykkja er innan þeirra marka að flokkast sem “eðlilegt kynlíf”. Lykilorðið er samt alltaf samþykki. Allra sem taka þátt.
Þess vegna er kynfræðslan svo gríðarlega mikilvæg og nauðsynleg því hún potar í úreltar rógrónar hugmyndir um rúnkmúffur og þjónustuhlutverk legganganna, mikilvægi töffaragangs sem fæst aðeins með áfengis og hvernig beri að haga sér sem í bólinu.
Fræðsla skiptir máli.
Þú berð ábyrgð á þinni eigin fullnægingu, enginn annar. Ef þig langar að fá það, rúnkaðu þér þá. Í kynlífi má hætta hvenær sem er og hvar sem er. Án eftirmála.
Hvenær sem er.
Stuttlega að áfenginu því mér finnst það mikilvægt. Við setjum víðsvegar reglur um áfengisneyslu og hvað má og hvað ekki, af hverju er kynlíf undaþegið frá því? Áður en þú kafnar á snakkinu þínu og færð taugaáfall að ég sé að fara taka af þér helgarhobbíið að fara niður í bæ, detta í það og hössla einhvern heim með þér þá vil ég að þú staldrir við. Það er erfiðara fyrir kynfærin að svara örvun þegar viðkomandi er ölvaður. Það er erfiðara að tjá sig, þú ert síður líklegri til að nota smokkinn og það er erfiðara að fá fullnægingu.
Af hverju hugar þú um rekkjunautinn á sama tíma og þú sturtar í því skotum? Af hverju er ekki þriðja áfengisskotið merki um að nú skuli kynfæri best geymd á sínum stað en ef þú ert að kafna úr greddu þegar kemur heim þá bara rúnkaru þér með hægri og ert með sveittan bátinn í vinstri.
Þetta er hluti af kynlífshandritinu sem þarf að breytast. Ölvuð manneskja á erfitt með að meta aðstæður og gefa samþykki. Þegar við ræðum um kynlíf, og sérstaklega samfarir þar sem önnur manneskja stingur sér inn í aðra, þá verðum við að vilja vera með og geta það. Hættu þessu dettaíþaðhössli. Dettu í það, daðraðu, fáðu símanúmer (eða twitter notendanafn) og hentu þér heim í leigubíl. Málið á að vera dautt. Samþykki er ekki flókið eða loðið, það er einmitt einfalt, hreint og beint að kjarna málsins.
Segðu þetta með mér: Er allt í lagi? Finnst þér þetta gott? Má ég halda áfram?