Menn sem meiða konur

Í ljósi bókarinnar sem ég hef verið að lesa og dómsins sem féll um daginn í máli ofbeldismannsins Bjarka þá langar mig að tala aðeins um karlmenn sem meiða konur.

Bókin sem ég er að lesa heitir Predators; pedophiles, rapists & other sex offenders og er eftir Dr. Anna C. Salter.

14530259

Á mánudaginn síðastliðinn minntist ég á barnaníðinga í kjölfar umfjöllunar um þá í bókinni. Næstu kaflar fjölluðu svo um sadista en það eru þeir sem fá kynferðislega ánægju af því að kvelja og meiða aðra manneskju. Það sem er frábrugðið við sadista og þá sem stunda t.d. BDSM er sá að sadistar vilja meiða hina manneskjuna og fá ánægju út úr því. Þeir sem stunda BDSM eru hinsvegar oftast með eitthvað „öryggisorð“ sem stýrir því að þeir hætta því sem þeir eru að gera því að annar aðlinn vill ekki halda áfram eða meiðir sig. Þannig byggir þetta á öðrum tilfinningum og annari útrás en er oft ruglað saman.

Nú er ég ekki að segja að umræddur Bjarki sé sadisti en hann tengist frásögninni minni samt sem áður. Í bókinni má finna tilvitnanir dæmdra kynferðisafbrotamanna og ég verð að játa að orð sadistanna sitja mest í mér. Þessi hópur er oft kallaður siðlaus og/eða síkópatti (er ekki með betra orð yfir psychopath). Það er alger óþarfi að fara út í hryllinginn sem þeir eru færir um en ég verð að játa að mér fannst sumar lýsingar þeirra svipa ansi mikið til sumra karlmanna sem beita konurnar sínar andlegu og/eða líkamlegu ofbeldi. Þá einna helst var það lýsingin á þolandanum sem hlut sem hefur ekki tilfinningar og kallaði þessa meðferð yfir sig á einhvern hátt.

Í skólanum vann ég verkefni um aðgengi almennings að skráningu um kynferðisafbrotamenn. Þann pistil má nálgast hér. Það voru ýmis vandkvæði með réttindi afbrotamannsins vs. rétt almennings, á vitneskjunni. Hvað sem því líður þá snerti svona framkoma eins manns í garð annarar manneskju viðkvæma taug í okkur flestum, og grunar mig að okkur langar að geta varið okkur og þeim sem okkur þykir vænt um fyrir mögulegri ógn.

Fyrrverandi sambýliskona hans Bjarka hefur stigið fram og kosið að láta nafngreina hann til varnar öðrum konum. Gott framtak hjá henni og lýsir miklu hugrekki. Frásögn hennar á framkomu hans snart viðkæman streng í mér.

Ég þekki til eins manns sem ég myndi gjarnan vilja nafngreina (og helst prenta myndir af honum á boli og dreifa þeim á skemmtistöðum en það er víst ekki talið í lagi). Þessi maður smellpassar inn bæði inn í lýsinguna á Bjarka og á síkópatta. Hann kemur vel fyrir í hegðun og máli, er myndarlegur og við fyrstu sýn eins og draumaprinsinn. Hann byrjar sambandið á yfirdrifinni rómantík sem er eins og klippt útúr svæsnustu Hollywood mynd. Fyrst er ausið yfir hana hrósum en smátt og smátt fara litlar móðganir að seitla inn og sem og gagnrýni. Þannig byggir hana hana upp þangað til hefur náð henni og fer þá að brjóta hana markvisst niður. Hann gerir kröfu um mikla skuldbindingu en bara afþví hann er svo „ástfanginn“. Öllum tíma er eytt „bara við tvö“ og reynt að útiloka helst fjölskyldu og vini hennar megin. Allar aðrar konur sem hann hefur verið með falla í skuggann á nýju dömunni og hún er sú „eina“ rétta fyrir hann. Þá fylgir oft lýsing á hversu illa hinar konurnar fóru með hann þegar hann hafi bara reynt að vera „góður“. Hann á það til að segja hluti eins og „það mun enginn elska þig eins og ég“ sem svo seinna breytist í „það mun enginn vilja þig nema ég“. Honum liggur á hring, fjárhagslegri festu og barni. Allt gert til að negla dömuna niður og minnka líkurnar á að hún fari frá honum. Þetta gerist ótrúlega hratt allt saman og áður en hún veit er hún „bara með honum“, alltaf. Það sem gerist á bakvið luktar dyr fer að verða hennar einkamál því hún telur sér trú um að hafa ögrað honum á einhvern átt og ollið seinasta rifrildi. Það versta er að þetta gerist svo hratt og „ástin“ og hrifninginn er svo mikil að það getur verið erfitt að grípa inn í og reyna benda á raunveruleg áhyggjuatriði.

Í bókinni er lýsing sem er nákvæmlega svona en ég hef líka séð þessa atburðarás í íslenskum raunveruleika. Þetta er ein lýsing á skrefum í átt að heimilisofbeldi (sálrænu og/eða líkamlegu) sem erfitt er að spá hvar endar…

En hvað er hægt að gera?

Ef þú varar nýju kærustuna við þá lætur hún það sem vind um eyru sér þjóta enda ert þú bara „afbrýðisöm“ út í hana. Hann mun þá líklegast líka draga upp ansi ljóta mynd af þeim sem dirfast segja eitthvað ljótt um hann.

En Bjarki er með dóm og ítarlega opinbera lýsingu á sínum glæp. Mun það stoppa einhverja konu fyrir að falla fyrir honum? Líklegast ekki.

En kannski geta menn breyst. Þeir sem vilja breytast eiga að geta það. Ætli umræddur maður muni þiggja sálfræðiaðstoð í fangelsinu? Ætli hann sjái eitthvað rangt við sínar gjörðir og vilji breytast?

Er ekki batnandi mönnum best að lifa?

Það að lesa um þessa glæpi er ekki gott fyrir litla sálartetrið. Sálfræðin hefur sýnt fram á hversu mikilvægar og sterkar varnar sálarlífsins eru gegn allskyns raunveruleika sem erfitt er að skilja. Við erum flest með Pollíönu tilhneigingu og það af ágætis ástæðu…

Bara sem smá persónulegt dæmi, eftir að hafa lesið fyrrgreinda bók þá gat ég ekki farið ein að þvo þvott því ég var sannfærð um að einhver biði eftir að misþyrma mér í þvottahúsinu, ég neitaði að opna hurðina fyrir ókunnugum nágranna mínum og ég gáði í alla fataskápa og lokaði öllum gluggum fyrir svefninn…

Sigga Dögg

-sem er eiginlega einna hræddust við almenningssalerni-