Stelpukvöld FS

Í gær var ég með minn „fyrsta“ kynfræði tengdan fyrirlestur!

Fyrirlesturinn var haldinn fyrir fullu húsi stúlkna í Fjölbrautarskóla Suðurnesja.

Þemað var: kynfræðsla & Sex and the City

SATC&FSÞannig horfðum við á einn þátt með þeim stöllum og svo fór ég aðeins dýpra í eitt málefni sem kom fram í þættinum. Mér finnst nefnilega sniðugt hversu mörg málefni þær koma inn á í þáttunum og því um að gera að dýpka umræðuna aðeins með fræðilegri nálgun.

SATC&G-spotG-bletturinn og saflát er ákaflega „heitt“ umræðuefni en alls ekki laust við ýmsar mýtur og misskilning og því fannst mér kjörið að tala aðeins um það í þessum fyrirlestri.

Ef þú vilt lesa þér til um G-blettinn og saflát þá má finna upplýsingar um það hér.

Eftir mitt erindi þá fékk ég stelpurnar til að gera eina létta æfingu með mér og svo bauð ég þeim að skrifa spurningar á blað sem var svo safnað saman í körfu og ég svaraði. Þannig var þetta allt saman nafnlaust svo stelpurnar þurftu ekkert að óttast heldur gátu bara skrifað niður það sem brann á þeim að vita.

Spurningarnar voru þó nokkrar en það var samt smá svona rauður þráður sem mér fannst ögn meira áberandi en hvað annað;

stelpumidar_1Margar af spurningunum snéru að „einu svari“ eða „töfralausn“ sem og hvernig á að fullnægja karlmanni. Svarið mitt var því oft á svipuðum nótum og beindist að stelpunni sjálfri. Þú ein (nn) veist hvað þér finnst gott og það er með kynlífið eins og matinn, maður þarf að prufa til að komast að því hvað virkar og hvað ekki. Þannig reyndi ég að hvetja stelpurnar til að stjórna því sjálfar hvað væri gott með því að skoða sig sjálfar því auðvitað getur verið erfitt að setja ábyrgðina á eigin ánægju á einhvern annan þegar maður veit ekki sjálfur hvað gerir mann ánægðan!

Eða er það ekki?

Annars var kvöldið einstaklega vel lukkað og skemmtilegt og nú hvet ég framhaldsskóla landsins og aðra góða hópa til að hafa samband og bóka mig í fyrirlestur, að sögn viðstaddra var þetta einstaklega líflegt og fræðandi erindi.

Að öðru.

Ég kíkti á Transdaga í HÍ í dag og hlýddi á erindi Jónu Ingibjargar og Davíðs Þórs um orðaval og notkun í tengslum við transgender hópinn. Þarna var góður hópur samankominn og voru uppástungurnar um orð ótrúlega áhugaverðar og skemmtilegt að hlusta á viðstadda leika sér með íslenskuna. Annars fyrir mína parta þá finnst mér einstaklega áhugavert að sjá hvort og þá hvernig intersex verður íslenskað. Mér finnst transa og transi ekki svo slæm íslenskun á transexual en ég held mig við hvað einstaklingurinn vill láta kalla sig eftir aðgerð og oftar en ekki er það hið „nýja“ líffræðilega kyn, kona eða karl. Þá var fólk mikið að tala um hversu gildishlaðin sum orð geta verið og hvernig notkunin á þeim breytir gildi þeirra. Það þykir mér einnig áhugavert í ljósi þess að tungumálið er í sífelldri þróun og er í raun „lifandi“ þar sem það breytist með fólkinu, eins og Davíð Þór benti oft á.

Lumar þú á góðum íslenskum orðum yfir transgender eða intersex?

Sigga Dögg

-sem finnst tungumálið oft flókið en skemmtilegt fyrirbæri-