Unglingar & klám

Mér finnst umræðan um klám og mögulega skaðsemi þess fyrir einstaklinginn einkar áhugaverð. Margir tala um „klámkynslóðina“ og hvernig auðvelt aðgengi að klámi í gegnum m.a. veraldarvefinn getur „brenglað“ hugsanir ungs fólks sem er að móta með sér sína kynferðisvitund og verund.

Ég hef mikið pælt í þessu, sér í lagi sökum þess að mikið af minni kynfræðslu átti sér stað í eftirmiðdagsklámmyndaáhorfi með vinkonum mínum. Hvað mig varðaði, þá skildi ég ekki alveg tilganginn með öllu sem þau gerðu í myndunum og mér fannst þetta ekkert sérlega spennandi í „praxis“ en þó áhugavert og eitthvað sem ég vildi kynna mér nánar, svona úr „fjarlægð“.

TEENS and tv watching

Hvort þessar myndir teljist svo til erótíkur eða kláms er svo aftur önnur umræða um skilgreiningar á milli klám vs. erótík vs. ofbeldi og er ekki eitthvað sem ég ætla ekki að fara í að svo stöddu. Hér nota ég klám og kynferðislega djarft efni til skiptis fyrir sama hlutinn.

Ég fór að skoða hvort ég fyndi ekki eitthvað um málið og datt niður á nýja (2009) prýðisgóða grein eftir Jochen Peter við Háskólann í Amsterdam.

Jochen og félagar vildu kanna hvort að notkun á kynferðislega djörfum (sexually explicit) myndum á internetinu hefðu áhrif á kynferðislega ánægju unglinga.

Teen_girl_using_laptop

Tilgátur þeirra voru eftirfarandi: a) Aukin notkun á kynferðislega djörfu efni á internetinu dregur úr kynferðislegri ánægju, og, b) eftir því sem kynferðisleg óánægja vex, því mun meiri ásókn er í kynferðislega djarft efni.

Þannig gæti verið ósamræmi milli tveggja „raunveruleika“, annars vegar þess sem einstaklingur lifir og hrærist í og er ef til vill ekki nægilega kynferðislega fullnægjandi og svo heimi klámsins þar sem alltaf er nóg af kynlífi; og það væri þetta ósamræmi á milli „raunveruleika“ sem orsakaði óánægju.

Þá töldu þeir einnig að samanburður við jafninga gæti haft áhrif á kynferðislega ánægju á þann veg að þeir sem væru óreyndir í kynferðismálum og bæru sig saman við reynda jafninga myndu upplifa meiri kynferðislega óánægju og bæta upp fyrir það með því að sækja í auknum mæli í kynferðislega djarft efni á internetinu.

Rannsóknin var megindleg og framkvæmd yfir árs tímabil með reglulegum spurningalistum. Þá var kynferðisleg virkni skilgreind sem sleikur, sjálfsfróun, samfarir og hvers lags „kelerí“.

SEX_by_DRIVINGYOUÞátttakendur voru yfir þúsund unglingar á aldrinum 13 til 20 ára í Hollandi.

Greinin rekur fyrri rannsóknir á mögulegum áhrifum kláms og unglinga og segir þar m.a. að um 42% bandarískra unglinga, 10 til 17 ára, hafa skoðað klám yfir árs tímabil. Hvað varðar kynfræðslu, þá sögðu 61% unglinga á aldrinum 13 til 16 ára að helstu upplýsingarnar um kynferðismál höfðu þau fengið í sjónvarpsþáttum sem þau horfðu á.

Önnur bandarísk könnun fann að þriðjungur bandarískra 14 og 15 ára unglinga höfðu stundað samfarir og þar af þriðjungur án getnaðarvarna.

Þá hafa nokkrar rannsóknir fundið tengsl á milli klám áhorfs og frjálslyndari skoðana til kynlífs, sterkari viðhorf að konur séu „kynlífs hlutir“ og hugsanir um kynlíf eru ofarlega í huganum.

Þá hefur ein rannsókn á unglingum fundið tengsl á milli þunglyndis einkenna, óánægju með lífið og aukinni notkun kynferðislega djarfs efni á internetinu. Það þarf þó að taka fram að samsláttar áhrif eru á milli kynferðislegrar óánægju, þunglyndis og óánægju með lífið svo erfitt er að slá fram orsakasambandi í þessu samhengi.

peer_pressure

Þá virðist samanburður við jafninga skipta ansi miklu máli þar sem kynferðisleg virkni vinahópsins virðist skipta máli fyrir kynferðislega virkni einstaklingins. Hópþrýstingur í formi samanburðar virðist því hafa einhver áhrif kynferðislega séð.

Margar rannsóknir á áhrifum kláms eru komnar vel til ára sinna og því kannski ekki gott að rekja þær of ítarlega en, oftar en ekki hafa fundist tengsl á milli óánægju kynferðislega og óánægju við líkamsímynd og maka, og aukins áhorfs við klám. Rannsóknir á unglingum hafa fundið að þeir beri líkama sinn saman við það sem þeir sjá í fjölmiðlum (kannski engin ný vísindi þar á ferð).

Niðurstöður þessarar hollensku rannsóknar voru þær að þeir sem höfðu minni kynferðislega reynslu leituðu meira í kynferðislega ögrandi efni og upplifðu meiri óánægju með kynlífið sitt.

sexual frustration

Þá skipti það máli fyrir kynferðislega óánægju og notkun á klámi hvort viðkomandi bar sig saman við jafningja sem var kynferðislega reyndur eða ekki; ef það var viðkomandi var óreyndur og bar sig saman við reynda jafninga sína þá var óánægjan meiri og ásókn í klám meira.

Hvað má svo lesa útúr niðurstöðum þessarar rannsóknar?

Viðmið einstaklings, vinahópurinn, virðist hafa einhver áhrif á kynferðislega óánægju. Mér dettur helst í hug laglínan: „allir eru að gera það gott nema ég..“

En nú er mér spurn, hvernig vita unglingar hvað vinir þeirra gera fyrir luktum dyrum? Og, hvaða kynferðislega athöfn „vegur mest“ í þessum samanburði, þ.e. er tott „meira virði“ heldur en fróun frá öðrum?

Mér finnst það nefnilega oft vera þannig með megindlegar rannsóknir að þær eru meira lýsandi heldur en „útskýrandi“. Því gæti það verið áhugavert að fylgja þessari rannsókn eftir með t.d. viðtölum eða rýnihópum og kanna hvað virkilega skýrir upplifunina kynferðisleg reynsla og ánægja.

En svona er þetta með rannsóknir, þær skilja oft eftir sig svo margar fleiri spurningar en þær raunverulega svara, eða hvað?

Ef þú værir að leggja af stað með rannsókn á kynhegðun unglinga, hvað myndir þú þá skoða?

Sigga Dögg

-sem setti nýja könnun af stað hér til hliðar, endilega taktu þátt-