Kynfæramyndir

Píkurnar

Árið 2010 fór ég af stað með kynfræðsluna.

Minn fyrsti fyrirlestur var á Læknadögum þar sem ég var með erindi um skapabarmalýtaaðgerðir eða það sem ég kallaði píkuplastík. Við undirbúning þess fyrirlestrar þótti mér mjög mikilvægt að sýna ljósmyndir af píkunni svo viðstaddir gætu séð fjölbreytileikann. Það er ekkert eitt mót því hún er bara allskonar. Konum er ekki sérstaklega kennt að þykja vænt um kynfærið sitt og skoða það svo þetta er mörgum hulin heimur. Ég fékk sterk viðbrögð við ljósmyndunum svo ég vissi að þetta væri eitthvað sem ég varð að taka með mér í kynfræðsluna. Auðvitað gerði ég slíkt hið sama fyrir typpin.

Þetta voru bara ljósmyndir sem ég fann á netinu og það var alls ekki hlaupið að því að finna kynfæramyndir sem ekki voru úr heimi klámsins þar sem útlit kynfæranna á það til að vera ansi einsleitt og typpi um 10 sentímetrum stærri en meðallengd lims.

Við nær endalausa internetleit að góðum kynfæramyndum þá stakk maðurinn minn, ljósmyndari, upp á að við myndum bara taka þessar myndir sjálf. Ég var ekki tilbúin í það (ég eins og svo margir hugsaði „hver ætli myndu taka þátt í einhverju svoleiðis?“) og endaði á því að styðjast við nafnlausar myndir af netinu.

Ég lofaði sjálfri mér því að flytja aldrei fyrirlestur nema kynfæramyndir væru með í glærusýningunni og við það hef ég staðið og á þetta sérstaklega við um píkuna.

Fólk veit mjög takmarkað um kynfæri sín og endurspeglaðist það vel í spurningum nemenda í kynfræðslunni. Um leið og kynfæramyndirnar birtast þá spennir hópurinn eyrun og er tilbúið að vera með í smá fróðleiksferðalagi.

Nú 2014 var ég loksins tilbúin að taka mínar eigin myndir, af samborgurum mínum og viti menn, viðtökurnar voru framar öllum væntingum.

Hér er afraksturinn. Njóttu og endilega deildu en mundu að aðgát skal höfð í nærveru sálar.

Píkurnar Typpin

Hvert sem ég kem hefur fólk kíkt á myndirnar enda fékk síðan yfir 100.000 heimsóknir á innan við viku frá því að ég birti myndirnar. Ég hef heyrt af einstaklingum sem hafa í kjölfarið skoðað sín kynfæri vel og vandlega og enn aðra sem hafa sæst við sín því fjölbreytileikanum ber að fagna.

Þátttaka var nafnlaus og ekki var greitt fyrir hana.

Þátttakendur voru á aldrinum 21 árs til 57 ára. Þar á meðal var stelpa með typpi, transkona, ófrísk kona, par, samkynheigður einstaklingur, gagnkynhneigður einstaklingur, giftir og á lausu, amma, einstaklingur með félagsfælni, foreldrar og bara allskonar fólk úr öllum stigum og hornum samfélagsins og tel ég það bara nokkuð góðan þverskurð.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *