Fyrsti kvennahringurinn - þetta höfum við brallað!
- Sigga Dögg
- Oct 20
- 2 min read

Það er búið að vera svo gaman hjá okkur!
(þetta er aðeins brot af hópnum enda misjafnt hverjar mæta í viðburðina)
Þarna vorum við í villikellingagusu og það var sko sungið og trallað og borið á sig þara og busslað í sjónum, svitnað og svo sungið meira! Svo ég segi eins og unglingarnir: ógeðslega gaman!
Við höfum reyndar verið mjög duglegar að fara í sjóinn, bæði farið í Guðlaugu uppá Akranes, í Nauthólsvík og svo þarna við Skarfaklett.
Stelpurnar hafa einnig komið í heimboð til mín einu sinni auk þess sem við erum með tvo rafhittinga á mánuði því þó nokkrar eru erlendis sem eru í hópnum. Þar höfum við alltaf haft ákveðið þema fyrir hvern hitting en höfum líka leyft okkur að fara um víðan völl og spjalla um allskonar og bara kynnst í rólegheitum. Eitt samt sem margar eiga sem sameiginlegt áhugamál og það er kukl!
Kemur kannski ekki á óvart í ljósi þess sem ég hef verið að fjalla um uppá síðkastið en við höfum verið nokkuð opinskáar að tala um allskyns kukl tengt og drauma og trú án þess að kafa alveg ofan í djúpu laugina þar. En ég upplifi heiðarleg og einlæg samskipti sem eru mjög falleg.

Þetta eru einmitt glósur frá einni úr kvennahringnum eftir eitt rafheima spjallið okkar.
(já ég fékk leyfi til að deila þessari mynd :) )
Svo fórum við í Tai Chi (tók enga mynd en fékk svakalega strengi!) og það var mjög áhugavert, krefjandi, en áhugavert. Næst á dagskrá er svo dans í Kramhúsinu með Írisi Stefaníu þar sem við dönsum úr okkur gamla staðnaða orku og ég hlakka mjög til! Að sjálfsögðu förum við svo í gufu!
Svo eigum við eftir að fara í KAP og hittast í Pálínukuklföndurboði og svo dettur eitthvað óvænt inn svona inn á milli, alltaf gaman að því :)

Heyrðu já! Við heimsóttum líka Tinnu Royal listakonu uppá Skaga - það var mjög skemmtilegt enda verkin hennar stórkostleg, mæli með því að kíkja við á hana ef þú átt leið hjá (nú eða bara hreinlega gera sér ferð!). Hún tók höfðingjalega á móti okkur með kræsingum og fróðleik.
Þá gátum við einnig verslað af henni jólaskraut og önnur listaverk :)
Svo það er eitt og annað sem við höfum verið að gera, og verð að segja að það var mjög notalegt að bjóða heim, mér finnst það svo persónulegt og gott að hittast á rólegu nótunum í persónu og ég fann að við gátum farið aðeins á dýptina saman.
Og þetta er svona það helsta í fréttum af okkur hugsa ég!















Comments