Um mig

Ég, Sigga Dögg kynfræðingur, er með B.A. gráðu í sálfræði frá Háskóla Íslands og M.A. gráðu í kynfræði (sexology) frá Curtin háskóla í Vestur Ástralíu.

Ég hef frá unga aldri átt auðvelt með að tala um kynlíf og brenn fyrir því að fræða unga sem aldna um málefni sem er flestum hugleikið en reynist mörgum erfitt að ræða. Það kom mér á óvart þegar ég hóf kynfræðsluna hversu lítið kynfræðsla í grunnskólum hafði þróast frá því að ég var grunnskólanemandi. Því fann ég æpandi þörf fyrir því að byrja þar og fræða unglingana.

Mitt helsta starf felst í kynfræðslu í grunnskólum um land allt en það er undir hverjum skóla að panta hjá mér fræðslu. Ég er sjálfstætt starfandi og nýti gjarnan tímann á milli fræðsluerinda til að skrifa, en ég hef skrifað þrjár bækur og held ótrauð áfram. Ég hef einstaklega gaman að því að vinna þverfaglega á sviði kynfræðarinnar með ólíkum hópum við fjölbreytta verkefni; allt frá leikhópum til veflausna.

Ég er gift þriggja barna móðir sem elskar að fara út að borða, ferðast um heiminn, hámglápa Netflix, lesa góða bók, narta í súkkulaði og horfa á hryllingsmynd!

Ég er einnig formaður Kynís, kynfræðifélags Íslands.

Nálgun

Kynfræðsla Siggu Daggar hefur skapað sér sérstöðu fyrir að vera opinská, einlæg og full af húmor. Hún leggur ríka áherslu á að skapa jákvætt og opið andrúmsloft í sínum tímum og er gengið útfrá því að kynlíf megi vera gott en þar þurfi að ríkja virðing, væntumþykja, sjálfsþekking, samþykki og opin samskipti. Í upphafi tímans er nemendum lagðar þrjár reglur.

 

Fyrsta reglan er sú að það má alltaf standa upp og fara úr tímanum, án útskýringar eða ástæðu.

Önnur reglan er sú að það má alltaf spyrja spurninga.

Þriðja reglan er sú að nemendur skulu bera virðingu hvort fyrir öðru, innan tímans sem utan hans.

Tungumál

Í kynfræðslunni eru notuð orð og fornöfn þvert á kynhneigð og kynvitund. Þannig er talað um píkur en ekki stelpur þegar verið er að tala um píkuna, og typpi en ekki stráka. Þegar talað er um kynlíf og ástina eru orðin: einstaklingar, fólk, manneskjur, maki, félagi, og bólfélagi, notuð. Þá er tekið fram að ást er ást og kynlíf er kynlíf og sömu samskiptareglur gilda fyrir allt mannfólk, óháð menningu, uppruna, kyni, kynhneigð og kynvitund. Virðing, samskipti og samþykki er hjartað í kynlífið. og því auðvitað líka í kynfræðslunni.

Þessi nálgun veitir nemendum rými til að vera eins og þau eru og elska eins og þau elska.

Kynfæri

Orðin píka og typpi eru notuð. Þetta eru orð sem eru notuð af heilbrigðisyfirvöldum og í almennu tali. Orðin ber ekki að óttast og er mikilvægt að geta notað réttnefni yfir kynfæri sitt.

Ljósmyndir spila stóra rullu og eru sýndar myndir af blæðingum, píkum, typpi, sæði og smokknum. Það er mikilvægt að sýna fram á fjölbreytileika raunverulegra íslenskra kynfæra, sérstaklega í ljósi þess að það úir og grúir af að misvísandi upplýsingum og einsleitum ljósmyndum og myndskeiðum á netinu.

Þá er einnig talað um að kynfæri segja ekkert til um manneskjuna sem á þau, hvorki um áhugamál, kynhneigð eða kynvitund. Og tekið er fram að alltarf er hægt að finna leið til að njóta kynlífs, óháð útliti kynfæranna.

Unaður

Í kynfræðslunni er lögð rík áhersla á unað, að við nálgumst kynlíf útfrá jákvæðni og að það megi vera gott. Sérstaklega er talað um að hver og einn beri ábyrgð á sínum eigin unaði. Nemendur eru hvattir til að kynnast eigin líkama áður en þeir kynnast líkama annars einstaklings eða leyfa öðrum að kynnast þeirra eigin líkama.

Unaður í kynlífi er ekki undir öðrum einstaklingi komið heldur er það undir manni sjálfum komið að þekkja eigin líkama og geta gefið leiðbeiningar um hvernig snerting manni þyki góð. Þá þarf maður einnig að geta tekið við leiðbeiningum frá bólfélaga um hvað viðkomandi þyki gott.

Gott kynlíf snýst því ekki um tækni heldur um samþykki, samskipti og sjálfsþekkingu.

 

Viðtöl við Siggu Dögg

Sigga Dögg er vinsæll viðmælandi í fjölmiðlum, bæði í útvarpi, prentmiðlum og sjónvarpi. Hún vann um árabil hjá Fréttablaðinu þar sem hún skrifaði vikulega pistla um kynlíf og sambönd. Viðtöl við Siggu Dögg má finna hjá eftirfarandi miðlum.

© 2019 Kúrbítur slf.

SDA-logo-pink_4x.png