Skoðaðu píkuna þína
- Sigga Dögg
- 2 days ago
- 2 min read

Vitið hversu mikilvægt það er að segja unglingum þetta?
Stelpurnar líta oft hvor á aðra, frekar skömmustulega eða jafnvel með ógeði þegar ég tala um þetta. Þær eiga ekki sína eigin píku heldur er hún eitthvað til að fela, jafnvel skammast sín fyrir. Einhver með vesen sem fær sveppasýkingu og blæðir og er með lykt. Og lítur örugglega hræðilega út. Er ljót.
Svo verður hún annarra. Annarra að sjá og sjá um. Elska og dýrka og reyna að þóknast. Að segja stelpum að þær þurfi fyrst að kynnast eigin píku áður en þær bjóða öðrum að gera það (ef þær ætla að gera það) er ekki róttæk fræðsla heldur eðlileg. Sjálfskönnun og þekking á eigin líkama er nauðsynleg. Það valdeflir þær og þá öðlast þær skilning á unaði sem er jú undirstaða kynlífs.
Kynlíf er ekki bara fyrir hinn.
(Og strákarnir í tíma skilja það, þeir eru alveg sammála. Kinka kolli og finnst þetta hljóma skynsamlega.)
Ef stelpur ætla að stunda kynlíf með annarri manneskju verða þær að gera það fyrst með sér sjálfri. Þora að snerta og skoða og þykja notalegt.
Því þær verða að geta gefið leiðbeiningar um hvað þeim þyki gott og hvernig.
Kynlíf er nefnilega svona „gaman saman“ - gaman fyrir þig og gaman fyrir mig. Ef það er ekki gaman þá skulum við gera eitthvað annað. En svo að það sé hægt að hafa gaman þá verðum við að tjá okkur, hvað okkur þyki gott og hvernig. Segja og sýna.
Og ég geng lengra og segi, að ef þú getur ekki tjáð þig í kynlífi með annarri manneskju þá ertu ekki tilbúin til að stunda það. Og það er allt í lagi. Kynlíf er val. Þú hefur allt lífið til að taka þessa ákvörðun. En þú verður að geta bæði gefið leiðbeiningar og tekið við þeim.
Ef þú getur ekki tjáð þig þá er samþykki ekki til staðar.
Ef manneskjan sem þú ert með tjáir sig ekki þá er samþykki ekki til staðar.
Þetta er ekkert svo flókið.
Og þetta ræðum við.
Í ÖLLUM kynfræðslutímum, undandarin fimmtán ár, um land allt.
Í allskonar húsum sem heita allskonar nöfnum.
En ég þarf alltaf að tala um þetta.
Og það væri frábært ef þú gerðir það líka.



Comments