Að gefa gjöf & gera mistök
- Sigga Dögg
- Sep 9
- 3 min read
Árið 2018 fékk ég blæðingar á heilann. NEI SKO Á HEILANN. Ég varð heltekin af tíðablóði og sögu blæðinga og menningu og bara öllu sem tengist blæðingum. Keypti heilu bókastæðurnar af tengdu lesefni og drakk það í mig. Það vill svo vel til að þá hafði líka verið mikil vitundarvakning í heiminum um blæðingar og margar hugrakkar konur höfðu unnið mikið og gott starf til vitundarvakningar á málefninu. Nei sko ég fór meira að segja það langt að ég myndaði eigið tíðablóð og álfabikarinn og blóðið sem rann þegar ég var í sturtu og þegar ég þreif fingurna. Det hele. Á heilann.
Og hvað gera rithöfundar með þráhyggju?
Jú þeir skrifa auðvitað bók!
Það var svo margt sem mig langaði að segja og svo margt sem þessar elsku litlu túrverur þurfti að vita og það hafði aldrei verið skrifuð íslensk bók um blæðingar. ALDREI.
A L D R E I.
Ég meina, blæðingar, þar eitthvað að ræða það sérstaklega?
Já! Heldur betur!
Af reynslunni vissi ég vel að börn og unglingar vissu afskaplega lítið um blæðingar því í kynfræðslunni spurði drengir gjarnan hvort stelpur gætu ekki bara haldið í sér og hversu margir lítrar gusuðust út úr okkur mánaðarlega. Og svo voru það litlu dúllurnar sem héldu að það blæddi bara þegar við pissuðum. Skiljanlega! Ég var alveg eins á þessum aldri og meira að segja fullorðin var svo margt sem ég ekki vissi og ekki skyldi!
Svo ég lagði af stað í vegferð. Blæðingafræðslubók sem byggði á reynslusögum íslenskra túrvera. Ég henti í nokkrar spurningakannanir og viðbrögðin létu heldur ekki betur ekki standa á sér og svöruðu fleiri hundruðir kvenna og sögðu mér sína sögu.
Ég auðvitað, verandi ég, vissi að ég væri með gull í höndunum! Ég fann lyktina af Fálkaorðunni og íslensku bókmenntaverðulaununum. Gvuð, þyrfti ég ekki að gera mörg þúsund eintök?! Ég meina, þetta færi á hvert einasta íslenska heimili! Svo dýrmætt og einstakt!

Höldum útgáfupartí!
Tvö útgáfupartí!
Höldum myndlistarsýningu á menningarnótt!
Og ég fór af stað. Virkjaði mína bestu konu í sköpun sem var með í bókinni. Hafði puttana í öllu a til ö og elskaði sköpunarverkið mitt!
Meistaraverkið mitt!
Mun renna út eins og heitar lummur!
En svo kom annað á daginn.
Póstur frá Eymundsson: „Sæl, þú átt hér endursendingu á óseldum bókum, viltu vinsamlegast sækja við fyrsta tækifæri.“
Margir svona póstar frá mörgum bókabúðum. Ha?
Svo sagði ein kona við mig á fyrirlestri „Það þarf ekkert svona bók, það vill enginn svona bók.“
Jújú einhverjir höfðu keypt hana, einhverjir vildu hana. Sumir bara til að styðja mig og aðrir kannski flétta upp í henni við og við, og það er gott í hjartað.
En eru blæðingar ekki lýðheilsumál allra? Er kvenheilsa einkamál? Eru píkur og blæðingar enn í skápnum?
Kannski var hún of stór, of dýr, of fyrirferðamikil, of mikið ég?
Þetta ferli virkjaði öll mín virðissár og þeim fossblæddi. Þetta fór beint í „viltu ekki sjá? skipti ég ekki máli? sjáðu fallega sköpunarverkið mitt, ljósið í myrkri vanþekkingar, viltu ekki taka við því?“
Vitiði, ég grét svo mikið mánuðina eftir að hún kom út og ég fylltist svo mikilli skömm. Fannst ég vitlaus að hafa farið út í þetta verkefni. Vitlaus og asnaleg. Þurfti að mæta með skottið á milli lappanna í hverja bókabúðina á fætur annarri að taka heim bækurnar. Og horfði svo á staflana af óseldum bókum teppa hverja einustu geymslu og horn íbúðarinnar. Og stóran feitan mínus á heimabankanum.
Ég vorkenndi sjálfri mér svo mikið að þú þarft alls ekkert að gera það.
En svona er þetta stundum. Við veðjum á rangan hest eða gerum hluti þannig að þeir hitta ekki í mark eða bara eitthvað, gerum mistök.
Ég er enn smá meyr í hjartanu yfir bókinni, aðallega því mér þykir svo vænt um hana og finnst hún svo falleg og skemmtileg og langar svo að öll börn hafi aðgengi að góðri túrfræðslu. Mér fannst ég vera að heila formæður mínar líka í þessari útgáfu. Og kannski var ég að því.
Þarna var góða lexían um ferðalagið en ekki áfangastaðinn dýrmæt, sem og að hengja ekki sköpunarverkið á útkomuna.
En nú sit ég uppi með heilu brettin af bókinni og hef boðið íþróttafélögum að selja hana í fjáröflun á góðum afslætti en fengið vægast sagt dræmar undirtektir. Ég hef reglulega boðist til að gefa félagsmiðstöðvum hana og það hefur gengið svona tja, lala. Hef líka gefið hana í allskyns bingó, fjáraflanir og svona hitt og þetta.
Og ég veit ekki alveg hvert ég er að fara með þetta eða hvað ég á að gera við hana. En mig langaði bara að segja þér sögu af því þegar hlutir ganga ekki upp. Og það er enginn silfurlíning eða allt í einu gekk allt upp.
Þetta bara er eins og það er.
Allar hugmyndir vel þegnar :)





Túrbókin er stórkostleg! Algjör biblía. Ekki skil ég frekar en þú hvers vegna fólk kveikti ekki þá, það hlýtur að gera það seinna <3.