Að sleppa og slaka á
- Sigga Dögg
- 12 minutes ago
- 2 min read

💫 Þema ársins 2025 hjá mér var bjóða kvenorkuna velkomna.
Fagna systralagi, mýkt, þolinmæði, þögn, innri visku, formæðrum og rólegheitum.
Og já ég veit að það að tala um kvenorku er kannski tryst. En fyrir mér er það besta orðið til að lýsa þessu ferli en ég held að ég hafi ýtt þessari mýkt frá mér í langan tíma því ég óttaðist hana. Það sem er mjúkt er viðkvæmt og þar með brothætt og því nennti ég engan veginn. Svo ég herti og herti og áfram gakk.
Það var svo í Köben fyrir tveimur árum sem Andrea Eyland vinkona mín faðmaði mig þétt að sér og bað mig um að sleppa tökum. Og anda saman í takt. Ég skyldi ekkert hvert hún væri að fara með þetta. Sagðist vera bara fín og nokkuð hress á því. Bara smá svona, stíf og kannski smá reið. Ekkert alvarlegt, bara hæfilega reið og hæfilega stíf.
Og ég gaf mig ekki. Gat ekki andað í takt með henni.
Svo spurði hún mig, hvað gerist ef þú sleppir?
Ég sagði: kannski byrja ég að gráta... og get aldrei hætt.
Og það var raunverulegur ótti, að ef ég sleppti að þá myndi ég brotna í öreindir sem ekki væri hægt að líma aftur saman.
En það varð eitthvað til þarna á þessari stundu. Hugljómun jafnvel.
Og við það, ásamt allskonar öðru, opnaði ég fyrir mýktina. Og ég brotnaði ekki heldur varð sveigjanleg. Sem kom mér mjög á óvart.
Í mýktinni liggur styrkurinn.
Þegar ég lagðist í jólabaðið núna á aðfangadag þá heiðraði ég þessa fallegu nýju orku mína og gerði eitthvað fyrir mig sem ég hef lesið um í bókum en datt aldrei í hug að ég ætti sjálf eftir að dúllast við, ég bjó til dekurbað með rósarblöðum og ilmjurtum og höfrum og salti og te-i og öllu öðru sem klisjur krefjast af konu að fara í kvenlegasta bað þessa heims og næsta.
og kveikti á gyðju-lagalista (sem einhver ofsalega mjúk kona hefur búið til)
og þarna lá ég að gera ekkert. nema slaka á.
Á AÐFANGADAG!
Og já það má. Og sama konan steig uppúr baðinu sem fór ofan í það, kannski með ögn slakari axlir og rólegri andadrátt. En það varð engin virtun eða opinberun, bara smá stund í tilverunni sem var falleg og mín.
Og er þetta orkan sem ég tek með mér inn í nýja árið.
Taka pláss í mýktinni, fagna henni, klæðast rósinni og hennar litum, hægja á, hlusta, þegja, og svo bara anda rólega og vera. Ekki gera.
Gleðilegt nýtt ár elskulegust og takk fyrir samfylgdina á því liðna🌠



Comments