Kynfræðsla í grunnskólum

Vorönn hófst með hrynu af fyrirlestrum fyrir 8.bekkinga og foreldra þeirra fyrir norðan á Akureyri.

Ég flyt árlega kynfræðslu á vorönn fyrir 8.bekkingina og foreldra þeirra og hefur það mælst vel fyrir, bæði hjá unglingunum og svo foreldrum þeirra. Þegar ég mætti í einn skólann þá stöðvaði einn nemandi mig og bað mig um að heilsa upp á bekkinn sinn, hún var svo glöð að sjá mig aftur og það var hjartvermandi. Unglingar eru nefnilega snillingar og flest þeirra þyrstir í fróðleik um líkama sinn, tilfinningar og samskipti en það er það sem kynfræðsla er.

Ég grínast stundum með að í kynfræðslu þurfi að kenna tækni og þess vegna byrji tíminn á að fara í sleik við sessunaut. Þetta veldur töluverðum titringi í bekknum og vekur krakkana hressilega við því flestir hafa kosið að sitja með góðum vin eða vinkonu en ekki manneskju sem þau eru skotin í. Þegar ég loksins segi grín þá léttir þeim töluvert og skellihlæja og þar með höfum við brotið ísinn og getum hafið formlega fræðslu.

00006336_LoveWars

Kynfræðsla fyrir unglinga í grunnskóla er klukkustundarlöng. Ég miða við að hafa helst ekki fleiri en 25 nemendur á hverjum fyrirlestri og í sumum skólum er kynjaskipt og í öðrum árgangaskipt. Kynjaskipting virðist þjóna stúlkum betur sem eiga auðveldara með að spyrja ef drengir eru ekki með. Drengir virðast spyrja óháð því hver er með þeim í tíma. Þetta er ekki algilt eða heilagt heldur svona almennt, heilt yfir.

Ég flyt kynfræðslu fyrir unglinga frá 7.bekk til 10.bekk og sýni allskyns myndir, þar með talið kynfæramyndir, en af klukkustundarlöngum fyrirlestri myndi ég telja þær myndir vera um 10 mínútur af heildarfræðslunni. Við fjöllum einnig um samþykki, sjálfsfróun, kynlífsmýtur, blæðingar, sæði, fullnægingar, klám, verjur og kynsjúkdómatjekk, aldursmun í samböndum og svo í raun ráða spurningar krakkanna oft því hver við endum.

Foreldrafræðslan er iðulega að lokinni fræðslu unglinganna, að kvöldi til, og tekur 90 mín. Þar fer ég í gegnum hvað skiptir máli þegar kynlíf og kynhneigð er rædd við unglinga og gef foreldrum verkfæri í þessum samræðum. Svo sýni ég þeim fyrirlestur unglinganna og hvet foreldra til að kaupa smokkinn handa börnum sínum.

Mæting á foreldrafyrirlestrana er yfirleitt mjög góð og eru foreldrar þakklátir og móttækilegir fyrir því að fara spjalla við börnin sín um þessi mál.

kjaftadumkynlif

 

Ef þinn skóli/foreldrafélag vill panta fræðslu þá er hægt að senda mér tölvupóst: sigga hjá siggadogg.is